154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[18:45]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er góð spurning. Ég hef skoðað þetta sjálf, hvort ég ætti að gera það, að leggja fram frumvarp um Magnitsky-lög hér á Íslandi. Þegar ég kannaði þetta ofan í kjölinn þá kemur í ljós að við erum þannig séð búin að búa til ákveðinn Magnitsky-ramma sem snýr að því að utanríkisráðherra getur tekið þátt í öllum þessum þvingunaraðgerðum sem koma frá Evrópusambandinu. Þau eru með sína Magnitsky-löggjöf og þetta uppfærist svona í takt við það. Það er samt ákveðið vandamál sem fylgir því hvernig við ákveðum að nálgast þetta í staðinn fyrir að vera með sértæka Magnitsky-löggjöf þar sem við nefnum þessi nöfn og þetta verður hluti af lagasafninu á Íslandi og öllum ljóst og skýrt og aðgengilegt, þetta er eins og svona hlekkur inn á Evrópusambandið sem við erum í raun að styðja við. Ég sendi fyrirspurn á utanríkisráðherra fyrir einhverju síðan þegar ég var að velta þessu svolítið fyrir mér þar sem ég spurði hvað ríkisstjórnin og ráðuneyti hennar væri að gera til að tryggja að þessu væri framfylgt. Þetta felur m.a. í sér að viðkomandi má ekki opna bankareikning hjá okkur, að það eigi að frysta allar eignir sem viðkomandi er með hjá okkur o.s.frv. Það eru alls konar viðurlög sem fylgja þessu. En það kom bara fram að bankarnir beri ábyrgð á þessu. Það er ekkert eftirlit með þessu. Það kom ekki einu sinni fram hvort bankarnir væru látnir vita af þessum nöfnum eða þessari reglugerð eða hvernig sem það er. Ég veit ekki alveg hvernig þeir eiga að vera meðvitaðir um þetta fjall. Mér fannst það umhugsunarefni og þar af leiðandi er enn þá tilefni til að skoða hvort það sé rétt að setja sértæka löggjöf hér. En það er tiltölulega nýbúið að breyta löggjöf á þessu sviði þannig að ég er svona aðeins búin að vera melta þetta. Það bætist ofan á þetta, eins furðulega og það hljómar, að Magnitsky-löggjöfin í Evrópu tekur ekki á þeim sem í raun og veru báru ábyrgð á dauða Magnitskys.